Cart is empty
Kort af Ásheiði tekið úr gömlum bæklingi Umhverfisstofnunar um Þjóðgarðinn í Jökulsárglúfrum
Veðurglöggt forystufé
Sumarið 1994 dvaldi ég sem oftar í Þjógarðinum í Jökulsárgljúfrum ásamt Óla manni mínum og dætrum okkar Höllu og Védísi 8 ára og Melkorku 12 ára. Þann 11. júlí var fallegt veður, sólskin og hlýtt. Við höfðum hitt vinafólk okkar á tjaldsvæðinu í Ásbyrgi og ákveðið að fara í góða gönguferð með þeim, svo kallaðan Kvíahring. Gengið er frá tjaldsvæðinu í Ásbyrgi, klifið upp klettana í Tófugjá, farið með túnunum á bænum Ási, um Skógarhóla og að björgum Jökulsár við Kúahvamm. Síðan er fylgt undurfögrum og stórbrotnum gljúfrum Jökulsár suður á bóginn þar til komið er að gatnamótum þaðan sem leið liggur aftur norður um Kvíar eftir farveginum sem áin gróf þegar hún myndaði Ásbyrgi. Komið er að Ásbyrgisbrúnum við botn byrgisins og þeim fylgt aftur að Tófugjá. Þetta er dágóð dagleið eða um sautján kílómetrar. En við kviðum engu, áttum fyrir höndum sólbjartan og fagran sumardag.
Ég held mjög upp á þessa gönguleið. Ein ástæða þess er sú að þar sem hún fer með björgum Jökulsár er góð sýn yfir á eystri bakka árinnar, til jarðarinnar Vestara-Lands en þar var ég í sveit öll sumur frá barnæsku til fullorðinsára. Svo að um leið og ég geng upp með ánni að vestan get ég notið þess að horfa yfir á eystri bakka árinnar sem ég þekki svo mæta vel. Á þessum tíma var búið að friða þjóðgarðinn í Jökulsárgljúfrum fyrir beit svo að á okkar leið hittum við ekkert fé en austan ár voru kindur. Við virtum nokkrar þeirra fyrir okkur og tókum sérstaklega eftir því að þær voru ekki á rólegri beit eða í hvíld heldur stikuðu þær norður á bóginn í átt til bæja. Við héldum hins vegar áfram leið okkar suður á heiðina vestan ár.
Þegar við vorum komin langleiðina þangað þar sem við ætluðum að snúa við dimmdi í lofti. Svört ský æddu til himins í suðri, þrumur drundu og eldingar leiftruðu. Þetta var nógu ógnvænlegt en verra þó að á einhvern hátt hafði Halla orðið viðskila við hópinn og við sáum hana hvergi. Þarna eru lágar klettaborgir og birkikjarr svo að auðvelt er að missa sjónar á fólki. Þrumuveðrið nálgaðist, fylgdi gljúfrunum norður á bóginn. Yfir okkur steyptist éljaslydda, risastór snjóhögl buldu á okkur og söfnuðust í skafla á jörðinni. Eitthvert okkar reyndi að telja eldingarnar og fullyrti að þær væru orðnar fimmtíu og okkur fannst þær vera óhuggulega nærri okkur. Jafnframt því að við reyndum að híma þar sem var eitthvert skjól hrópuðum við á Höllu og leituðum hennar. Allt í einu sá ég að Melkorka var komin upp á háan klett og bar við himin. Ég hrópaði á hana, þetta væri hættulegt í þrumuveðri og kallaði á hana niður. Hún hafði farið upp á klettinn til að sjá betur yfir, hvort hún sæi Höllu en sá hana ekki. Þetta var allt að verða hið skelfilegasta en þá kom Halla hlaupandi. Hún hafði séð Melkorku á klettinum og vissi þá hvar við vorum. Það urðu fagnaðarfundir. Halla sagði að þegar hún hefði áttaði sig á að hún hefði týnt okkur leitaði hún skjóls í skúta undir kletti þar sem hún sá vel til göngustígsins sem við höfðum farið og gerði ráð fyrir að við færum hann til baka. Þar fórum við ekki og komum ekki auga á hana í skútanum. Við vorum orðin holdvot og köld og vildum sem fyrst komast í skjól. En við vorum nánast jafnlangt frá landvarðahúsinu í Vesturdal og tjaldsvæðinu í Ásbyrgi þaðan sem við höfðum komið og stysta leiðin þangað var einmitt leiðin um Kvíar sem við höfðum ætlað okkur að fara svo að þangað snerum við. Nokkru síðar hafði þrumuveðrið ætt fram hjá okkur áfram norður og brátt skein sólin á ný. Í götunum sem við örkuðum eftir voru enn sums staðar hrúgur af stóru höglunum en þau bráðnuðu fljótt. Jafnframt því gufaði vatnið upp af okkur, við urðum skraufþurr í sólinni og gátum notið göngunnar norður að Ásbyrgi. En þær tvíburasystur Halla og Védís voru alveg búnar að fá nóg af náttúruupplifun þann daginn. Þær ruku af stað á undan okkur eftir götunum og hlupu sem fætur toguðu alla leið niður í Ásbyrgi. Þær voru örugglega komnar þangað klukkutíma á undan okkur hinum og voru í heyskap á tjaldsvæðinu með landvörðum þegar við skiluðum okkur. Í ljós kom að eldingarnar höfðu brotið og eyðilagt fjölda rafmagnsstaura og að bæði varð rafmagns- og símasambandslaust í Norður- Þingeyjarsýslu um tíma. Fólk norður þar mundi ekki eftir öðru eins þrumuveðri og þennan dag.
Daginn eftir fórum við fjölskyldan í heimsókn að Vestara-Landi. Ævintýri gærdagsins var okkur hugleikið, að fara af stað í frábæru veðri, upplifa þetta skelfilega óveður og koma svo aftur til baka í blíðviðri. Húsmóðirin á Vestara-Landi sagði okkur þá að veðrið hefði ekki komið henni á óvart, forystuféð hefði varað við því. Á bænum hefur verið ræktað forystufé í áratugi. Þetta eru fallegar og skrautlegar kindur sem ég mundi vel eftir frá sumrunum í sveitinni. Á vorin vildu þær ólmar til fjalla, jafnvel áður en þær höfðu borið lömbum sínum svo að þeirra þurfti að gæta vel. Og erfitt gat verið að koma þeim heim til bæja í smölun. Oft hafði ég í æsku þurft að eltast við þessar kindur til að koma þeim heim. En þennan dag, nokkrum klukkutímum áður en óveðrið æddi yfir sveitina, komu nokkrar forystukindanna heim að túnhliði með hóp af öðrum kindum með sér og vildu komast inn. Þá vissi húsmóðirin á Vestara-Landi að nú mætti búast við einhverjum hamförum sem forystuféð fyndi á sér. Við minntumst þá fjárhópsins sem við sáum yfir ána. Kindurnar vissu sínu viti og eitthvað miklu meira en við og strunsuðu til byggða þegar við mannskepnurnar héldum áhyggjulausar upp á heiðalöndin.
Rifjað upp í ágúst 2021.
Sigrún Helgadóttir
Örlítil umfjöllun var í fjölmiðlum um þrumuveðrið sem fór um Norðausturland í júlí 1994:
https://timarit.is/files/18071309#search=%22eldingar%20eldingar%22
https://timarit.is/files/19273151#search=%22eldingar%22